144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[14:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Einmitt varðandi þessa dagskrártillögu samkvæmt þingsköpum — ef ekki er hægt að bera hana upp til atkvæðagreiðslu á þeim fundi þar sem hún er lögð fram kemur skýrt fram í 77. gr. þingskapa:

„Sé þingfundur ekki ályktunarbær, sbr. 78. gr., er tillagan kemur til atkvæða skal greiða atkvæði um tillöguna við upphaf næsta fundar.“

Það eru þrír óbreyttir þingmenn sem leggja fram tillöguna. Það hefði kannski, ef menn hefðu fyrst viljað ræða störf þingsins núna, þann dagskrárlið, en ekki bera tillöguna upp í upphafi fundarins eins og lög um þingsköp kveða á um, hefði verið sjálfsagt að tala við flutningsmenn tillögunnar, spyrja þá hvort eitthvað væri athugavert við það. Við hefðum örugglega öll verið sammála því. Hæstv. forseti Alþingis sendi hins vegar bréf á þingflokksformenn og vegna þess að hann fékk ekki mótbárur við þessu ályktaði hann svo að það væri samþykkt.

Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að það eru óbreyttir þingmenn sem hafa heimild til að leggja fram svona dagskrártillögu um breytingar (Forseti hringir.) þá … ekki að láta þingflokksformennina stjórna þessu. Þetta er bara upp á formið, við höldum þessu til haga og gerum það þannig í framtíðinni.