144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[14:09]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti leitaði eftir samráði við þingflokksformenn um það hvort athugasemdir væru við að tillagan yrði afgreidd í upphafi þingfundar eftir að umræðu um störf þingsins væri lokið. Það hefðu ekki verið nein vandræði fyrir forseta, ef athugasemdir hefðu komið, að hnika því til og láta þessa atkvæðagreiðslu fara fram áður en umræður hæfust um störf þingsins. Forseti fékk hins vegar engar athugasemdir út af þessu og taldi því að þetta væri gert í fullri sátt við þingmenn. Þetta er alvanalegt að þegar leitað er eftir samráði sé það gert í gegnum þingflokksformenn.

Fyrir forseta vakti ekki annað en að reyna að tryggja að full athygli yrði á umræðunum um störf þingsins og ekkert annað bjó þar að baki. Forseta þykir hins vegar leitt ef hv. þingmenn hafa eitthvað við þetta að athuga en telur að það sé í samræmi við þingsköp að gera þetta með þeim hætti sem forseti ákvað að höfðu samráði við þingflokksformenn.