144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[14:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Með samþykkt þessarar dagskrártillögu getum við lýst stuðningi við það að viðhafa vönduð og fagleg vinnubrögð þegar kemur að grundvallarákvörðunum um sambúð verndar og nýtingu náttúrusvæða. Þetta er mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur, þetta er líka mikilvægt efnahagslegt mál. Það er mikilvægt að tefja ekki nauðsynlegar rannsóknir á þeim kostum sem þarf að rannsaka betur, en það er líka mikilvægt að standa vörð um réttan framgangsmáta. Hér er ríkisstjórnin að leggja til að fella algjörlega órannsakaðan virkjunarkost inn í tillögu sem er búin til í kringum Hvammsvirkjun sem hefur verið rannsökuð í þaula. Þetta er jafn klikkað og þetta er jafn fráleitt og ef við stæðum frammi fyrir því að ríkisstjórnin legði til að virkja Gullfoss. Ég hvet þingmenn eindregið til þess að styðja þessa dagskrártillögu og greiða atkvæði þannig með því að það sé eitthvert system og einhver regla og farið að þeim lögum sem um þennan málaflokk gilda.