144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[14:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hér greiðum við atkvæði um dagskrártillögu þar sem farið er fram á að mál sem inniheldur mjög umdeilda breytingartillögu frá stjórnarmeirihlutanum um að virkja meira verði tekið af dagskrá. Þessi breytingartillaga er ígildi þess að koma með sundurlyndisfjandann inn í þingsal, sýna okkur hann bara, hún hittir beint inn í kviku einhverra erfiðustu deilumála sem þessi þjóð hefur átt í. Með því að hafna þessari dagskrártillögu þá er stjórnarmeirihlutinn að taka meðvitaða ákvörðun um að hleypa þingstörfum upp í illkvittnislegar og leiðinlegar — vonandi málefnalegar, þær verða það — deilur, en það er mörgum hérna inni mikið hjartans mál hvernig við tökum ákvarðanir um að virkja á Íslandi. Um það hefur verið sett löggjöf. Þeir sem vilja virkja (Forseti hringir.) meira geta komið með sérstaka tillögu hingað inn í (Forseti hringir.) samræmi við lög. Þeir leggja það ekki fram sem breytingartillögu á milli umræðna um þingsályktunartillögu. (Forseti hringir.)Í guðanna bænum, ekki setja málið á dagskrá.