144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[14:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með því að taka þetta mál á dagskrá með þeim hætti sem hér er gert er verið að gera tvo hæstv. ráðherra að algerum ómerkingum, annars vegar hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur og hins vegar Sigurð Inga Jóhannsson sem nú er fráfarandi umhverfis- og auðlindaráðherra. Báðir þessir ráðherrar hafa sagt í þessum stóli að það eigi að gefa verkefnisstjórninni svigrúm til að vinna sína vinnu lögum samkvæmt. Það sem hér er verið að taka á dagskrá er einmitt ekki það. Það er verið að taka verksviðið af verkefnisstjórninni og ákveða að láta pólitíska duttlunga ráða för þegar ákvarðanir um auðlindanýtingu eru annars vegar. Er Framsóknarflokkurinn svona illa haldinn í þessu stjórnarsamstarfi að hann ræður ekki við að standa við orð tveggja hæstv. ráðherra? Er svona illa fyrir honum komið?

Virðulegi forseti. Það skiptir máli hvernig við komum fram á hinu háa Alþingi. Það er ekki svona, með svona tuddaskap (Forseti hringir.) eins og þessi ríkisstjórn er orðin heimsfræg fyrir.