144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[14:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Tímasetning þess að setja þetta mál á dagskrá er fráleit. Það vita allir hér inni og hefur verið kýrskýrt frá því hugmyndin var borin fram að mikið ósætti er um þetta mál, þ.e. virkjunarkostina, og þá sérstaklega að fimmfalda virkjunarkostina af hálfu hv. formanns atvinnuveganefndar, Jóns Gunnarssonar. Nú stöndum við frammi fyrir mestu kjaradeilum hér í áratugi. Við þurfum að ræða þá umgjörð, sem við þurfum kannski að breyta eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom inn á áðan, ef ég skildi hann rétt, það er ýmislegt sem við þurfum að ræða, t.d. hvernig við ætlum að komast hjá kjaradeilum, ekki bara núna, heldur í framtíðinni. Við þurfum að ræða þessi mál. Til þess þarf þingið svigrúm og það svigrúm getur ekki verið til staðar þegar þessu er kastað hingað inn á þingið á þessum tímapunkti. Burt séð frá áliti okkar á tilteknum virkjunarkostum er þetta óábyrgt, (Forseti hringir.) fullkomlega óábyrgt gagnvart þinginu, gagnvart báðum málaflokkum.