144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[14:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Þeir sem fylgjast með þessari umræðu um atkvæðagreiðsluna hljóta að velta fyrir sér: Hvers vegna heyrist ekkert í þeim sem vilja keyra umræðuna hér í gegn? Af hverju kemur enginn rökstuðningur fyrir því hvers vegna er þörf á að klára þetta mál, þvert á vilja stjórnarandstöðunnar? Af hverju eru menn tilbúnir til þess að fara í hörð átök hér í salnum um þetta mál? Af hverju eru menn tilbúnir til þess að steypa hér öllu í ófrið? Það hljóta að vera einhverjar röksemdir að baki slíkri framgöngu, einhver ástæða. Er enginn tilbúinn af þeim sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum að útskýra það fyrir þó ekki sé nema þeim sem eru að fylgjast með umræðunni og færa fyrir því rök? Er það ekki þannig sem hlutir eru ákveðnir í lýðræðissamfélögum, að menn færa rök fyrir málflutningi sínum og styðja hann með dæmum? Hvað er það sem hastar í þessum efnum? (Gripið fram í.) Ætla menn ekki að ræða neitt? (Forseti hringir.) Ég bið hv. þm. Jón Gunnarsson, sem af flestum (Forseti hringir.) er kallaður Friðjón Gunnarsson þessa dagana, að koma í ræðustól (Forseti hringir.) og gera grein fyrir því (Forseti hringir.) hvaða rökstuðningur er fyrir því að … (Forseti hringir.) Það er bara grafarþögn í salnum.