144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[14:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er enn þá ekki sátt við það hvernig hæstv. forseti tók á málum áðan varðandi atkvæðagreiðslu um þessa dagskrártillögu. Það stendur í þingsköpum að ef ekki er hægt að bera hana upp samstundis verði það gert strax í upphafi næsta fundar og þá hlýtur það að eiga að vera svo, þá er ekki hægt að meta það einhvern veginn öðruvísi og það sé bara hægt að skutla þessu á milli dagskrárliða. Það er ekki þannig. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að á þessu er losarabragur. Menn geta ekki farið svona með þingsköpin og það þarf að skýra betur hvað hæstv. forseta gekk til vegna þess að þetta er ekki í lagi. Við sem þingmenn sem tökum ákvörðun um að leggja fram tillögu um breytingu á dagskrá, sem gerist nú ekki á hverjum degi í þessum sölum, hljótum að gera ráð fyrir því á sama tíma að þingskapalögum um meðferð slíkra tillagna sé fylgt. Annars verð ég að segja, virðulegi forseti, að þinginu er ekki vel stjórnað ef menn geta ekki treyst þingskapalögum.