144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[14:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Eins og hefur komið skýrt fram í samtölum við hæstv. forseta Alþingis og samtölum við starfsfólk þingsins þá hefur forseti Alþingis alræðisvald til að dæma um það hvernig skuli túlka lög um þingsköp, lög um leikreglurnar sem við förum eftir hérna á þingi. Þegar menn hafa svona alræðisvald verða þeir að fara mjög varlega með hvernig þeir nota það. Það stendur mjög skýrt í lögunum og ég sem óbreyttur þingmaður hlýt að kalla eftir því ef ég legg fram dagskrártillögu með öðrum óbreyttum þingmönnum að þá geti forseti ekki með þögulu samþykki þingflokksformanna flokksins ákveðið að það skuli ekki vera tekið eins og lögum samkvæmt um þingsköp strax á dagskrá í upphafi þingfundar heldur að það skuli frestast. Ég er alls ekki sáttur við þessa túlkun manns sem hefur alræðisvald til að túlka lög.