144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[14:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi dagskrárliður endurspegli það ástand sem upp er komið í þinginu að það reynir verulega á fundarstjórn forseta. Hér er bæði verið að fjalla um það samráð eða samráðsleysi sem hefur átt sér stað í aðdraganda þess fundar varðandi dagskrártillöguna og fleiri þætti sem varða framvindu þessa fundar sem er hér hafinn. Ég vil segja við hæstv. forseta, verandi þingflokksformaður, að ef það reynir einhvern tímann á fundarstjórn forseta þá er það undir þeim kringumstæðum sem við erum að fara inn í núna. Ég ráðlegg hæstv. forseta, með mikilli vinsemd og virðingu, að hlusta eftir því að freista þess að ná friði í þinginu milli stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihluta áður en lengra er haldið í þingstörfum, vegna þess að það sem við erum að fara inn í núna er ófriður, það er ófriður hér innan húss, það er ófriður úti í samfélaginu. Það er ekki til farsældar, hvorki fyrir þing né þjóð, að virðulegur forseti sjái ekki að sér með framvindu mála.