144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[14:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það hefði verið bragur á því ef hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, formaður þingflokks framsóknarmanna, hefði komið hér upp og varið sína ráðherra í því máli sem hér er að koma á dagskrá. Þeir hafa sagt það skýrt í þessum ræðustól að rammaáætlun og það verkferli eigi að standa og það eigi að gefa verkefnisstjórninni ráðrúm til að vinna sína vinnu. (Gripið fram í.) Það sem hér er verið að leggja til er akkúrat þveröfugt. Það er verið að taka verkfærið af verkefnisstjórninni og láta pólitíska duttlunga ráða för (Gripið fram í.) og tuddapólitík.

Virðulegi forseti. Ég held að þegar hv. þm. Þórunn Egilsdóttir ákveður að koma hér upp eigi hún ekki að verja sjálfstæðismenn sem standa fyrir þeim tuddaskap sem hér er heldur að reyna að verja sitt fólk, vegna þess að þetta hafa ráðherrar framsóknarmanna sagt.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég bíð eftir því að sjá (Forseti hringir.) hvort efndir fylgi (Forseti hringir.) fögrum orðum hæstv. (Forseti hringir.) umhverfisráðherra í þessu máli þegar til kastanna kemur.