144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[14:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál snýr að því að halda armslengd á milli stjórnmálanna annars vegar og eignarhluta almennings í fjármálafyrirtækjum hins vegar. Það er ástæða til þess að gjalda sérstaklega varhuga við því að fjármálaráðherra vill ekki að málið fari í efnahags- og viðskiptanefnd, til hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, vegna þess að hv. þingmaður hefur verið gagnrýninn á hugmyndir ráðherrans um að færa okkur aftur til 2007 í bónusmálum og einkavæðingu bankanna. Þess vegna leggur hann til að málið fari heldur í fjárlaganefnd. Það er mikilvægt að Alþingi standi vaktina og reyni að varna því að þingnefndum sé beitt til þess að koma í veg fyrir að þingið veiti það eðlilega aðhald sem það á að gera, og að sú nefnd sem farið hefur með þennan málaflokk fái að halda því áfram þó að formaður nefndarinnar hafi leyft sér að gagnrýna (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra. Það verður tekið eftir því hvernig framsóknarmenn (Forseti hringir.) greiða atkvæði í þessu máli.