144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[14:49]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem við ræðum er efnislega þannig gert að færa má rök fyrir því að um það verði fjallað í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og jafnframt má færa rök fyrir því að um frumvarpið verði fjallað í hv. fjárlaganefnd. Ráðherrann leggur til að málinu verði vísað til hv. fjárlaganefndar en einnig hefur komið fram tillaga um að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þingheimur mun ákveða hvor nefndin fjallar um málið.

Ég vil af því tilefni benda á að formenn þessara tveggja nefnda hafa rætt saman og sammælst um að hvor nefndin sem verður fyrir valinu í þessari atkvæðagreiðslu muni þeir leita umsagnar hjá hinni með tveggja vikna umsagnarfresti, sem tryggir báðum nefndum möguleika til að koma að málinu og skoða það rækilega, taka á móti gestum og koma sjónarmiðum áleiðis til hinnar nefndarinnar, sem tryggir að þingið muni vinna þetta vel út frá öllum hliðum hvernig sem við greiðum atkvæði um þetta.