144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[14:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að taka þátt í þessari umræðu nokkurn veginn allri og ég held að í fáum málum hafi menn talað jafn mikið um eitthvað sem tengist málum ekki neitt og reynt að búa til einhverja allt aðra mynd en málið snýst um og í þessu máli. Það er sérstakt rannsóknarefni hvernig hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa ákveðið að lesa eitthvað allt annað út úr þessu máli en stendur í því. Ég hvet þá sem eru að fylgjast með þessari umræðu til að lesa sér til, bæði lögin um Bankasýsluna og frumvarpið sem liggur fyrir, og meta hvort það sé eitthvað til í þeim stóru yfirlýsingum sem hér heyrast hjá hv. stjórnarandstöðuþingmönnum.

Síðast þegar ég vissi voru flestir formenn nefnda tilbúnir að taka við málum. Í þessu tilfelli er verið að ræða um ríkisrekstur, þetta eru eignir ríkisins. Það er lagt til að málið fari í hv. fjárlaganefnd og til að það sé alveg tryggt að sjónarmið fái að njóta sín mun koma umsögn frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að hafa þetta öllu betra, virðulegi forseti.