144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[14:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Um Bankasýsluna hefur verið fjallað í efnahags- og viðskiptanefnd en á nú að færa umfjöllun yfir í fjárlaganefnd. Samkvæmt þingsköpum getur málið alveg átt heima á báðum stöðum en samkvæmt faglegum vinnubrögðum hefur safnast upp einhvers konar meiri sérþekking á því innan efnahags- og viðskiptanefndar þar sem meira hefur verið fjallað um þessi mál og unnið að þeim.

Það sama er að gerast með þetta frumvarp sjálft, þ.e. það hefur safnast sérþekking á því að fara með eigur ríkisins í bönkunum í Bankasýslunni. Rétt áður en á að fara að selja þessa hluti á að færa umsýsluna úr fanginu á Bankasýslunni inn í fagnefnd í ráðuneytinu. Rökin eru sparnaður, þetta er sparnaður upp á 1/6000 af eignum sem er verið að fara með. Það á sem sagt að reyna að spara 1/6000 en fórna fyrir það faglegu ferli sem getur á endanum kostað miklu meira og það er ekki faglegt. Það er heldur ekki faglegt sem við erum að greiða atkvæði um núna, að ætla að vísa þessu í fjárlaganefnd en ekki (Forseti hringir.) efnahags- og viðskiptanefnd þar sem málefni Bankasýslunnar hafa verið.