144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[14:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Enn einu sinni erum við farin að ræða ágreining um hvert eigi að vísa málum. Það er miður. Við héldum að þegar nefndabreytingin var gerð á sínum tíma væri þetta nokkuð klárt. Samkvæmt þingsköpum fjallar efnahags- og viðskiptanefnd um efnahagsmál almennt, viðskiptamál, þar með talið bankamál, fjármálastarfsemi og lífeyrismál, svo og skatta- og tollamál.

Í mínum huga er alveg klárt að þetta mál á að fara til efnahags- og viðskiptanefndar en ekki fjárlaganefndar. Við getum talað um hefð sem hefur skapast. Ef lögin eru óskýr eða eitthvað á grensunni hvar mál eigi að vera grípum við stundum til hefða á Alþingi. Hver er hefðin? Bankasýslan fór í upphafi til efnahags- og viðskiptanefndar og hér hefur komið fram að breytingar á henni hafa líka farið til efnahags- og viðskiptanefndar. (Forseti hringir.) Ef til vill þurfum við að hnykkja betur á þessu í þingsköpum en í þessu tiltekna máli sem við erum að greiða atkvæði um finnst mér það engin spurning.