144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[15:01]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera athugasemdir við það. Ég barði í borðið um leið og nafn mitt var nefnt sem flutningsmanns tillögu um að setja málið í efnahags- og viðskiptanefnd. Síðan hafa komið í pontu að minnsta kosti fimm sem börðu í borðið á eftir mér. Mér finnst þetta ekki viðeigandi fundarstjórn, virðulegi forseti, svo ég byrji á að gera grein fyrir því. Það virðist skipta máli, a.m.k. lítur svo út, hvar í virðingarröð fólk er hér innan þingsins. Mér finnst afar sérstakt þegar flutningsmaður er nefndur að horfa ekki í áttina að viðkomandi aðila.

Eins og hér hefur verið rakið hefur ekki komið fram rökstuðningur fyrir því hvers vegna fjárlaganefnd er valin. Mér finnst hann þurfa að liggja fyrir. Málefni Bankasýslunnar hafa alla tíð verið í efnahags- og viðskiptanefnd. Hvers vegna er hin leiðin farin? Því þarf að svara. Það er ekki hægt skipti eftir skipti að vísa málum í nefndir bara vegna þess að þau eru talin fá betri afgreiðslu í einhverri tiltekinni nefnd. Við horfum ítrekað á það að atvinnuveganefnd fær málefni (Forseti hringir.) sem hafa fram til þessa ekki endilega átt þar heima. Þetta er ekki að halda þingsköp, virðulegi forseti.