144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[15:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Umrætt lagafrumvarp fjallar um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins. Ég er sammála hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, það má sannarlega færa rök fyrir hvoru tveggja, að málið fari til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og hv. fjárlaganefndar. Hv. fjárlaganefnd er samkvæmt þingsköpum meðal annars ætlað að fjalla um fjármál ríkisins og meðferð eigna þess. Í þessu lagafrumvarpi eru tvenn lög undir, lög um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009, og lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins, nr. 155/2012. Ég fæ ekki betur séð en að það megi færa rök fyrir hvoru tveggja og ég er þess fullviss að hvor nefnd um sig mun fjalla um málið og gefa umsögn, þ.e. sú nefnd sem ekki fær málið til umfjöllunar.