144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[15:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér var dylgjað í hátt í klukkutíma um það mál sem er næst á dagskrá þingsins og nú er dylgjað á nýjan leik. Það var hrópað eftir samvinnu við ríkisstjórnarflokkana í fyrra málinu en nú er verið að hunsa það og raunverulega afþakka það þegar samvinna er í boði.

Virðulegi forseti. Ég held að hv. stjórnarandstaða eigi að fara að ákveða hvort hún er að koma eða fara í þessu þingi. Hér er rétt fram sáttarhönd í þessu máli og ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að fara yfir þingsköpin sem eru alveg klár að þessu leyti. Málið getur farið inn í báðar nefndir, það á betur heima í fjárlaganefnd. Fjárlaganefnd er búin að leggja fram það sáttatilboð að efnahags- og viðskiptanefnd fái að senda umsögn við málið. Er nema von að landsmenn sem sitja heima og horfa á Alþingi Íslendinga séu gáttaðir eftir þennan dag?