144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:13]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Á fundi atvinnuveganefndar 17. mars sl. afgreiddi nefndin breytingartillögu á þskj. 1180 við þingsályktunartillögu umhverfis- og auðlindaráðherra, þskj. 273, 244. mál, um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141. Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar er lagt til að auk Hvammsvirkjunar í Þjórsá fari Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun, einnig í Þjórsá, ásamt Skrokkölduvirkjun í Köldukvísl og Hagavatnsvirkjun við Hagavatn úr biðflokki í orkunýtingarflokk.

Málið er nú á ný komið á dagskrá þingsins til síðari umr., samanber 45. gr. þingskapa. Sama dag og málið var afgreitt úr atvinnuveganefnd kom það til umfjöllunar í þingsal þar sem því var haldið fram:

a. að ekki hafi verið fylgt lögbundinni málsmeðferð samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, þar sem verkefnisstjórn rammaáætlunar hafi til að mynda ekki fjallað um málið með þeim hætti sem ber,

b. enn fremur að breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar feli í sér gerbreytingu á hinni upphaflegu tillögu og því sé ekki hægt að samþykkja hana eftir aðeins eina umræðu, samanber 2. mgr. 45. gr. þingskapa.

Jafnframt var forseti beðinn um að úrskurða um þessi atriði, samanber 2. málslið 1. mgr. 8. gr. þingskapa.

Með lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun hefur Alþingi falið ráðherra að undirbúa tillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun sem nánar greinir í lögunum. Gert er ráð fyrir því að á grundvelli sjónarmiða sem eru rakin í 3. gr. laganna sé virkjunarkostum á viðkomandi svæðum raðað í orkunýtingarflokk, verndarflokk og biðflokk, jafnframt að verndar- og orkunýtingaráætlun taki til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hafi fjallað um. Um verksvið verkefnisstjórnar, verklag og málsmeðferð eru ítarleg ákvæði í 9. og 10. gr. laganna. Verkefnisstjórnin er ráðherra til ráðgjafar við undirbúning og gerð tillagna fyrir verndar- og orkunýtingaráætlun samkvæmt lögunum. Leggur hún að síðustu fyrir ráðherra rökstuddar tillögur um flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæða í samræmi við flokkunina, samanber 4. mgr. 10. gr. Um meðferð breytinga á tillögum verkefnisstjórnar fer samkvæmt 5. mgr. 10. gr.

Það leiðir af ákvæðum stjórnarskrárinnar að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun geta ekki haggað rétti þingmanna samkvæmt stjórnarskrá til þess að leggja fram þingmál. Á hinn bóginn verður að gera ráð fyrir að forseti gæti að því að meðferð mála sem til meðferðar eru sé jafnframt í samræmi við önnur lög, samanber 1. mgr. 8. gr. þingskapa Alþingis.

Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun gera ráð fyrir því að stefnumótun um nýtingu og verndun landsvæða til orkuvinnslu verði í höndum Alþingis og að hún sé byggð á upplýsingum um viðkomandi virkjunarkosti og verndar- og nýtingargildi þeirra landsvæða sem til umfjöllunar eru. Jafnframt verður það ráðið af lögunum og lögskýringargögnum að við það sé miðað að Alþingi taki ekki afstöðu til annarra virkjunarkosta en verkefnisstjórnin hefur fjallað um, en Alþingi sé á hinn bóginn ekki bundið af tillögum ráðherra eða verkefnisstjórnar heldur eingöngu að áður en Alþingi fjallar um áætlunina liggi fyrir faglegt mat á virkjunarkostum og landsvæðum. Það er hins vegar ekki skýrt sérstaklega í lögunum eða lögskýringargögnum hvað átt er við með faglegu mati eða hvenær í málsmeðferðinni það skuli liggja fyrir. Ekki segir heldur hver þurfi að vera niðurstaða matsins heldur eingöngu að liggja skuli fyrir faglegt mat. Af samhenginu virðist þó mega ganga út frá því að með faglegu mati sé vísað til umfjöllunar verkefnisstjórnar um virkjunarkosti að undangenginni málsmeðferð samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 48/2011. Sú tillaga, sem ráðherra kann að leggja að lokum fyrir Alþingi eftir umsagnarferli, samanber 5. mgr. 10. gr., breytir því ekki að faglegt mat verkefnisstjórnar hefur farið fram.

Lög nr. 48/2011 eru ekki skýr um það hvort líta beri á umfjöllun 2. áfanga rammaáætlunar sem myndaði grunn að fyrstu ályktun Alþingis um áætlun og vernd og orkunýtingu landsvæða 14. janúar 2013, nr. 13/141, sem eins konar upphaf og að eftir því sem fram liðu stundir mundu ný gögn bætast við vegna komandi virkjunarkosta. Í skýrslu verkefnisstjórnar 2. áfanga er til að mynda að finna ítarlega umfjöllun og niðurstöður um röðun Hvammsvirkjunar, Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Skrokkölduvirkjunar í orkunýtingarflokk og Hagavatnsvirkjunar í biðflokk. Ekki verður séð að deilt hafi verið um að þá hafi legið fyrir „faglegt mat verkefnisstjórnar“ vegna umræddra virkjunarkosta.

Lög nr. 48/2011 eru ekki afdráttarlaus um það hvort Alþingi geti byggt niðurstöðu sína á fyrirliggjandi mati verkefnisstjórnar og fyrirliggjandi gögnum sem síðar hafa bæst við eða hvort gerð sé krafa um að sú verkefnisstjórn sem í hvert skipti leggur grunn að tillögu ráðherra um breytingu á gildandi þingsályktunartillögu verði að hafa látið fara fram faglegt mat að nýju.

Þegar það er skoðað í heild sinni sem hér hefur verið rakið sýnast rök hníga frekar í þá átt að til grundvallar umræddum virkjunarkostum liggi þegar fyrir faglegt mat á þeim málefnalegu sjónarmiðum sem byggja ber verndar- og orkunýtingaráætlun á. Samkvæmt þessu eiga lög um verndar- og orkunýtingaráætlun ekki að leiða til þess að vísa beri breytingartillögunni frá.

Af 2. málslið 1. mgr. 8. gr. þingskapa leiðir jafnframt að forseta ber að gæta þess að tillögu til þingsályktunar sé ekki gerbreytt á þann hátt að þar verði raunverulega um allt aðra tillögu að ræða eða nýtt mál sem þurfi tvær umræður, samanber 2. mgr. 45. gr. þingskapa. Með gerbreytingu er vísað til þess að breytingartillaga samræmist ekki efni eða markmiði þingmálsins. Niðurstaða þess ræðst nánar af mati hverju sinni á því hvort breytingartillagan varði sama efni og fyrirliggjandi tillaga til þingsályktunar er um eða eigi efnislega samstöðu með henni.

Breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar felur í sér að fjölgað verði virkjunarkostum í nýtingarflokki eða umræddir fjórir virkjunarkostir færðir úr biðflokki í nýtingarflokk. Um þessa virkjunarkosti hefur verið fjallað á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun. Á breytingartillagan því efnislega samstöðu með tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra á þskj. 273 um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141.

Forseti vekur að endingu athygli á því að þingmenn sem eru ósammála um úrskurð þennan eiga rétt samkvæmt þingsköpum til að leggja fram frávísunartillögu með rökstuddri dagskrá, samanber 76. gr. þingskapa. Komi slík tillaga fram verða greidd atkvæði um hana við lok umræðunnar.