144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það liggur fyrir að sú staða sem við erum í núna er algjörlega óásættanleg, algjörlega óásættanleg, að virðulegur forseti standi hér og lesi tvær og hálfa blaðsíðu eftir þann tíma sem gefist hefur frá því að fordæmalaus breytingartillaga Jóns Gunnarssonar var lögð fram. Og á sama degi er okkur ætlað að byrja að ræða tillöguna — á sama degi.

Ég spyr, virðulegur forseti: Hvað liggur á? Af hverju fáum við ekki ráðrúm til þess að fjalla um þetta álit eða þennan úrskurð forseta, því að hér eru álitamál. Ég áskil mér rétt til að hafa fullar efasemdir um þann texta sem hér er lagður fram og ekki síst vil ég spyrja: Hver er það sem nýtur vafans? Hver nýtur vafans? Er það náttúra Íslands eða virðulegur þingmaður Jón Gunnarsson?