144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla að biðja hæstv. forseta, eftir að hafa kveðið upp úrskurð sinn, að upplýsa mig um eftirfarandi: Var þessi úrskurður lagður fyrir forsætisnefnd þannig að allir þeir aðilar sem þar eiga sæti gætu lagt mat sitt á hann og stendur sá hópur á bak við þetta álit? Eða er hér hæstv. forseti að sveigja þingsköp og afgreiðslu þingsins að óskum meiri hlutans, ákveðinna aðila, til þess að ná ákveðnum hlutum fram í þinginu?

Það er búið að henda rammaáætlun með þessum úrskurði. Hún er bara farin — rammaáætlun sem búin er að vera í 15 ár í undirbúningi til þess að undirbúa sátt. Eigum við að horfa upp á það enn einu sinni að hér eigi að velja ófriðinn, berja á hendurnar á þeim sem eru að reyna að ná einhverjum sáttum um einhver mál, ýta út þeim málum sem ekki næst sátt um? Hér kemur einföld tillaga frá hæstv. ráðherra um að ein virkjun skuli fara í gegnum þingið, (Forseti hringir.) verði færð á milli flokka, ein virkjun. Það væri fyrir löngu byrjað að vinna við þá virkjun ef ekki væri verið (Forseti hringir.) að tefja það í þinginu.