144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hæstv. forseti er hraðlæs maður og ég átti fullt í fangi með að lesa mig eftir þeim þræði sem hann óf úr klæði sem hann ætlar að bera á vopnin sem hér er brugðið á loft. En ég hnaut um hið sama og hv. þm. Róbert Marshall.

Hér er í reynd um tvíþætt mál að ræða, annars vegar hinar efnislegu tillögur sem ræða á í hinni efnislegu umræðu, ef hún fer fram, og hins vegar hvort þær séu formlega tækar til umræðunnar, og um það fjallaði salómonsdómur hæstv. forseta. Mér fannst hann vera ansi veikur. Hæstv. forseti sagði orðrétt: „… rök hníga frekar í þá átt“ að ekki ber að vísa breytingartillögunum frá. Það er á ákaflega veikum stoðum reist og með tilliti til þess að hér er um að ræða nokkuð langt álit sem miklu skiptir finnst mér að það væri til friðaráttar að hæstv. forseti gæfi stjórnarandstöðunni ráðrúm til þess að skoða þetta lögfræðiálit.