144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fara fram á það að hlé verði gert á þessum fundi svo við getum farið yfir þetta hörmulega álit sem lesið var upp hér áðan, og það verður bara verra og verra eftir því sem maður skoðar það betur. Það er búið að fara hér vandlega yfir það að álit hæstv. forseta er í andstöðu við niðurstöðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og lagaskrifstofuna þar. Það er í andstöðu við sjálfan texta þingsályktunartillögunnar. Það eru fullyrðingar í álitinu sem standast enga skoðun, sama hvar á það er litið, og því er haldið fram í því áliti sem lesið var upp hér áðan að þetta sé ekki meiri háttar breyting á upphaflegri tillögu. Hvernig má það vera þegar í þessari þingsályktunartillögu stendur beinlínis að þessir kostir séu ekki fullskoðaðir? Þá er það meiri háttar breyting að fjölga tillögu um einn kost upp í fimm kosti. Hvað er „meiri háttar breyting“ í huga hæstv. forseta?

Allt sem komið hefur fram í máli forseta þingsins segir að hér er um pólitískt álit að ræða, (Forseti hringir.) pólitískar skoðanir forseta en ekki faglegan úrskurð forseta (Forseti hringir.) alls þingsins.