144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vona að hæstv. forseti fyrirgefi mér þó að ég spyrji heldur fýlulega: Hvaða forréttinda þurfa menn að njóta og hvað þurfa menn að hafa verið hér lengi til þess að geta fengið aðgang að svona skjölum? Ég sé að menn eru að veifa þessu áliti, ég hef ekki fengið það.

Það er forseta að kveða upp úrskurði sem þingheimur verður að hlíta. En þegar pólitísk óveður eru í uppsiglingu verður hæstv. forseti að vera nokkuð nákvæmur í úrskurðum sínum. Mér fannst hæstv forseti ekki vera það. Það var ansi mikið hlaup á úrskurði hans. Hann sagði að rök hnigju frekar í þá átt að ekki væri hægt að vísa breytingartillögunum frá. Hann var ekki mjög viss í sinni sök.

Mér finnst staðan hafa gjörbreyst þegar það er upplýst hér af hv. þm. Kristjáni L. Möller að það er annað lagaálit til frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem segir bókstaflega að það sé ekki í anda laganna og ekki eftir þeim farið ef hér eru teknir til umræðu kostir sem ekki hafa fengið þá umfjöllun sem þau lög kveða á um. Þá finnst mér að hæstv. forseti ætti (Forseti hringir.) í … að verða við þeirri tillögu að hafa fund með þingflokksformönnum um málið.