144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið fengum við þennan úrskurð ekki löngu fyrir þingfund og síðan hefur þingfundurinn verið í heitari kantinum. Ég yrði mjög þakklátur fyrir smátíma til að fara yfir hann og efnisatriðin sem eru nokkuð viðamikil ef maður ætlar að skoða málið af einhverri dýpt. Við höfum ekki fengið tækifæri til þess. Okkur þingflokksformönnum var sendur hann um það bil þremur korterum fyrir þingfund á þeim tíma sem ég var að undirbúa þingfund og ég hef auðvitað verið á þingfundi síðan þá. (Gripið fram í.) Ég hef ekki haft tækifæri til að skoða hann til hlítar sjálfur. Ég hef þó reynt á meðan á þessum umræðum hefur staðið en þær eru ekki orðnar nógu langar til þess. Sömuleiðis hefði ég viljað deila honum með öðrum þingmönnum og fá álit þeirra og enn fremur kanna efnisatriði þeirra athugasemda sem hafa komið fram í ræðum hinna ýmsu hv. þingmanna um þennan úrskurð og auðvitað lagalegan ágreining sem greinilega er til staðar.

Mér finnst mjög mikilvægt að við frestum fundi, fáum svigrúm til að fara yfir þetta (Forseti hringir.) til að geta þá talað um þetta af meiri dýpt en við getum mögulega undir fundarstjórn forseta, virðulegi forseti.