144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Úrskurðinn er ég ekki enn þá búinn að fá rafrænt en ég tók mynd hjá einhverjum öðrum. Þar kemur fram að úrskurðurinn varði meðal annars „a. að ekki hafi verið fylgt lögbundinni málsmeðferð samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, þar sem verkefnisstjórn rammaáætlunar hafi til að mynda ekki fjallað um málið með þeim hætti sem ber“.

Nú hefur Kristján L. Möller bent á álit frá umhverfis- og auðlindaráðherra um að það sé ekki verið að fylgja lögum ef bætt er við svona virkjunarkostum eins og hv. þm. Jón Gunnarsson er að gera. Þá spyr maður sig og ég hlýt að spyrja forseta: Við gerð þessa úrskurðar forseta, þegar hann einn hefur algjört dómsvald, við hverja talaði hann? Þegar maður er með dómsvald og það eru einhver álitamál þá hlýtur maður að þurfa að fara til sem flestra. Fór hæstv. forseti til umhverfis- og auðlindaráðherra og spurði um álitin þar hvað þetta varðar, hvort þetta stæðist lög? (Forseti hringir.) Ræddi hann við þingflokksformenn og formenn flokkanna? (Forseti hringir.) Til hverra leitaði hann við gerð þessa endanlega dóms síns?