144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nú alveg einsýnt að hæstv. forseti verður að kalla saman þingflokksformenn og ræða málið betur. Úrskurður frá hæstv. forseta kemur rétt fyrir þingfund. Síðan þegar hæstv. forseti lendir í því að svara fyrir hann þá segir hann, ef ég fer rétt með, að Alþingi taki að lokum efnislega afstöðu.

Það á að fara að ræða málið í síðari umræðu núna án þess að fá efnisleg atriði inn á borðið. (Gripið fram í.) Samt á þingið að taka efnislega afstöðu. Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Tíminn sem hæstv. forseti hefur tekið sér til þess að úrskurða um þetta er býsna langur, en stjórnarandstaðan á að fara að skera úr um og taka efnilega afstöðu til málsins á innan við sólarhring.

Er þetta lýðræðið sem við ætlum að búa við? Er þetta þingræðið sem við ætlum að búa við? Menn vissu að hér yrði tekist á um eitt stærsta deilumáli íslensks samfélags. Það var sett í farveg, það var fundin leið og hún var samþykkt samhljóða. (Forseti hringir.) Samt efna menn til ófriðar. Því verða þeir (Forseti hringir.) sem rjúfa friðinn að bera ábyrgð á.