144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það hefur margt komið fram í þessari umræðu sem styður það enn betur að þingmenn eigi rétt á því að fá að skoða þessi mál á þingflokksfundi og að þingflokksformenn fari yfir það og geri betur grein fyrir því á þingflokksfundum. Annað eins hefur nú verið gert á hv. Alþingi. Það hefur þurft að rjúfa þingfund til að fjalla um mál sem eru jafnvel ekki eins alvarleg og þessi mál.

Ég tel ráðlegt hjá hæstv. forseta að hlusta á það sem hefur komið fram í umræðunni og beita lýðræðislegum vinnubrögðum og gefa okkur þingmönnum kost á að meðtaka þann boðskap sem felst í úrskurði hans sem ég tel vera með ólíkindum að hafi ekki verið kynntur á fyrri stigum áður en þetta stóra mál var sett á dagskrá, sem mun skekja öll þingstörf í framhaldinu.