144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum hér æ ofan í æ sett í mjög vonda stöðu gagnvart því hvernig við ætlum að forgangsraða vinnu okkar. Ef við ætlum að eiga við kjaradeilurnar, eins og við ættum að vera að gera, þ.e. að reyna að finna út úr því hvernig sé hægt að finna einhverjar langtímalausnir á slíkum deilum, þá þurfum við að sleppa því að tala um eitt umdeildasta málefni samtímans, rammaáætlun. Og ef við ætlum að einbeita okkur að rammaáætlun þá missum við af því sem varðar kjaradeilurnar og því gríðarstóra viðfangsefni.

Nú kemur aftur í þessa umræðu sami vandinn. Við fáum þennan úrskurð frá virðulegum forseta, sem við eigum að geta kynnt okkur á 45 mínútum ásamt öllum öðrum þingmönnum og tekið með í umræðuna sem síðan verður. Annaðhvort verðum við að skoða þennan úrskurð eða fylgjast með umræðunni sem hér á að eiga sér stað. Vandinn er sá að við þurfum að gera hvort tveggja. Þess vegna legg ég eindregið til þess að gert verði hlé á þingfundi til þess að við getum skoðað þennan úrskurð og haft hann á hreinu þegar við förum í efnislega umræðu um rammaáætlun. Þannig virka fagleg vinnubrögð, virðulegi forseti, þannig virkar öll vinna sem ég hef tekið þátt í alls staðar nema hér. Hérna lendir maður alltaf í því að eiga að gera tvo hluti á sama tíma. (Forseti hringir.) Þetta er óþarfi, virðulegi forseti, þetta er algjör óþarfi.