144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja í upphafi máls míns, því að hér var aðeins rætt um einhverjar uppnefningar og slíkt, að ef mönnum líður eitthvað betur með það, eins og hv. þm. Róberti Marshall eða öðrum, að vera hér með einhverjar uppnefningar eða annað skítkast, eins og hefur þekkst í umræðu um þetta mál áður, er það mér að meinalausu. Það svíður mismikið hvaðan slíkt kemur og í þessum tilfellum er það mér algjörlega að meinalausu.

Mörg stór orð hafa fallið hér, virðulegi forseti, og ég held að niðurstaða forseta sé auðvitað skýr og rétt varðandi umfjöllun um þetta mál, enda hlýtur réttur þingsins að vera ótvíræður í þeim málum sem til þess er vísað um að fjalla um það og þingmanna að gera breytingartillögur þar að lútandi eins og iðulega er gert í þessum málum. Mikil vinna hefur farið í málið hjá hv. atvinnuveganefnd. Það komu hátt í 70 einstaklingar á fund nefndarinnar í tengslum við þetta mál og fjölmargar umsagnir víða að.

Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða byggist á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í 3. gr. þeirra laga er kveðið á um að ráðherra leggi fram á Alþingi ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í tillögu þessari felst breyting á gildandi ályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141, sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013. Í tillögunni er lagt til að Hvammsvirkjun færist úr biðflokki í nýtingarflokk.

Gildandi áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða byggist að mestu á niðurstöðum 2. áfanga rammaáætlunar. Verkefnisstjórn 2. áfanga lagði til að 67 virkjunarkostir sem lagt hafði verið mat á röðuðust í sérhvern þessara þriggja flokka, þ.e. að 16 virkjunarkostir féllu í orkunýtingarflokk, 31 kostur í biðflokk og 20 kostir í verndarflokk. Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögunum voru drög að gildandi tillögu til þingsályktunar send til umsagnar sumarið 2011 af hálfu þáverandi iðnaðarráðherra. Með hliðsjón af athugasemdum sem bárust í umsagnarferlinu voru gerðar nokkrar breytingar á drögunum áður en tillaga til þingsályktunar var lögð fyrir þingið. Þar voru meðal annars sex virkjunarkostir færðir úr nýtingarflokki í biðflokk, Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun, Skrokkölduvirkjun og tvær virkjanir í Hágöngum. Ástæða tilfærslunnar var sú að nauðsynlegt þótti að kanna nánar einstaka áhrifaþætti þeirra kosta. Meiri hluti Alþingis samþykkti síðan þessa tilfærslu.

Í grundvallaratriðum tel ég núna alveg sama mál á ferðinni og var þá. Í ferlinu í lögunum er gert ráð fyrir því að ráðherra geti gert breytingar á niðurstöðu ráðgefandi nefndar sem verkefnisstjórnin er. Hann sendir síðan málið til þingsins og í lögunum er ekkert kveðið á um málsmeðferð í þinginu, heldur bara á stjórnsýslustigi. Við erum í raun að leggja mat á, að undangengnu sérstöku umsagnarferli um breytingartillögurnar sem farið var í, sérstakt umsagnarferli og ítarlega vinnu. Við erum með sama hætti að meta niðurstöðu úr þeirri vinnu eins og ráðherrar mátu niðurstöðu á síðasta kjörtímabili. Ráðherrar þá tóku ákvörðun um að færa suma þessara virkjunarkosta í biðflokk aftur. (Gripið fram í: Ha?) Það var engin sátt um það. Við töldum þá að sáttin um rammaáætlun hefði verið rofin og ég held mig við þá skoðun. Við mótmæltum því mjög harkalega og töldum að þar væri órökstutt verið að flytja þessa virkjunarkosti í biðflokk og að pólitík hefði spilað þar stóra rullu.

Á grundvelli þeirrar miklu vinnu sem fór fram við 2. áfanga rammaáætlunar, á grundvelli þess umsagnarferlis sem nefndin stóð síðan fyrir um þessar breytingartillögur núna, komumst við að þessari niðurstöðu. Ég held að hún sé í fullu samræmi við lög og það er algjör samstaða í meiri hlutanum um að flytja þessar breytingartillögur.

Núverandi verkefnisstjórn var skipuð hinn 25. mars 2013, en 12. júlí sama ár setti ráðherra viðauka við erindisbréf verkefnisstjórnar og fól henni að forgangsraða vinnu sinni þannig að hún framkvæmdi eins fljótt og auðið væri mat á þeim sex virkjunarkostum sem færðir eru úr nýtingarflokki í biðflokk samkvæmt framangreindu auk þeirra tveggja kosta sem ekki höfðu fengið fullnægjandi umfjöllun í meðförum verkefnisstjórnar í 2. áfanga, þ.e. Hagavatn og Hólmsá við Atley.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á fyrirliggjandi tillögu í þá veru að fjórir virkjunarkostir til viðbótar við Hvammsvirkjun færist í nýtingarflokk. Með öðrum orðum leggur meiri hlutinn til að auk Hvammsvirkjunar færist Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun í nýtingarflokk. Meiri hlutinn áréttar að auk Hvammsvirkjunar hafi Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun og Skrokkölduvirkjun verið í nýtingarflokki í niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar í 2. áfanga og byggist tillaga meiri hlutans einkum á þeirri niðurstöðu. Nánar er fjallað um hvern virkjunarkost fyrir sig í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Því hefur verið haldið fram að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun komi í veg fyrir að þingið geti lagt til breytingu á tillögu ráðherra þar sem sú verkefnisstjórn sem nú er að störfum hefur ekki skilað tillögu um röðun þeirra. Verkefnisstjórn í 2. áfanga rammaáætlunar lagði til, eins og ég nefndi, að flestir þessara kosta féllu undir nýtingarflokk, en lög um verndar- og orkunýtingaráætlun höfðu ekki öðlast gildi meðan sú verkefnisstjórn var að störfum.

Í lögum er kveðið á um skipan sex manna verkefnisstjórnar sem er ráðherra til ráðgjafar við undirbúning tillagna að verndar- og orkunýtingaráætlun samkvæmt lögunum. Í 9. og 10. gr. laganna er mælt fyrir um verksvið verkefnisstjórnar, verklag hennar og málsmeðferð. Í lögunum er gert ráð fyrir því að ráðherra leggi tillögu til þingsályktunar fyrir þingið en ekki eru ákvæði í lögunum um málsmeðferð á Alþingi. Um meðferð þingmála á Alþingi gilda lög um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Þar er kveðið á um breytingartillögur við þingmál. Einnig bendir meiri hlutinn á að þingmenn hafi ríkan rétt til að taka þátt í þingstörfum og er þeim til dæmis veittur réttur samkvæmt stjórnarskrá til að leggja mál fyrir Alþingi, samanber 38. og 55. gr. hennar. Meiri hlutinn telur að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun haggi ekki þeim rétti.

Með lögum um rammaáætlun var stefnt að því að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi vinnu við mat og flokkun á virkjunarkostum. Sú vinna hefur farið fram af hálfu verkefnisstjórnar sem skipuð var 25. mars 2013. Lögin eiga að stuðla að vandaðri og markvissri stefnumörkun og sátt um hvaða svæði megi nýta til orkuvinnslu og hvaða svæði megi vernda gagnvart slíkum framkvæmdum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Miklar deilur hafa verið um virkjunarmál hér á landi og má segja að með samþykkt laganna hafi vonir staðið til að dregið yrði úr slíkum þrætum.

Við umfjöllun um tillögu þessa hafa vaknað spurningar hjá meiri hlutanum um hvort rétt væri að staldra við og huga að endurmati á ferlinu þó að meiri hlutinn sé í grunninn sammála því ferli sem lögin byggjast á. Hins vegar má nefna nokkur atriði sem meiri hlutinn telur að fara mætti ofan í kjölinn á í því skyni að auka hagkvæmni og skilvirkni, bæði hvað varðar orkuvinnslu og verndarnýtingu.

Í fyrsta lagi má benda á að við umfjöllun um málið hafa komið fram athugasemdir um að verkefnisstjórn krefjist of ítarlegra gagna við yfirferð sína. Þetta er nefnt í ljósi þess að samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun er mælt fyrir um að tillögur verkefnisstjórnar undirgangist umhverfismat áætlana samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana. Markmið umhverfismats áætlana er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og jafnframt að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Með öðrum orðum hefur því verið haldið fram fyrir nefndinni að starf verkefnisstjórnar hafi að nokkru leyti snúið að því að kanna og óska gagna um atriði sem heyra fremur undir mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Það mat fer fram á síðari stigum og verður til dæmis ekki gefið út virkjunarleyfi nema mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir.

Markmið mats á umhverfisáhrifum er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum hennar. Það er einnig markmið þeirra laga að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar og stuðla að samvinnu þeirra sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig viðkomandi framkvæmd varða.

Í athugasemdum við frumvarpið er vísað til þess að markmið umhverfismats á áætlunarstigi væri að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku sem og samlegðaráhrifum margra framkvæmda á tiltekna umhverfisþætti eða tiltekin svæði. Jafnframt kom fram að þar sem stefnumörkun á áætlunarstigi væri yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem ætti við um einstakar framkvæmdir, yrði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana væri tiltölulega gróft mat, oft án sérstakra rannsókna á umhverfi og umhverfisáhrifum.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að draga skýra línu um það hversu nákvæm yfirferð verkefnisstjórnar er með það fyrir augum að ferli rammaáætlunar í heild verði ekki of viðurhlutamikið, dragist ekki um of á langinn og verði ekki margendurtekið.

Meiri hlutinn bendir á að þó að kostur falli í nýtingarflokk og flokkun gefi til kynna að þar megi virkja sé það ekki ávísun á að þar verði virkjun. Um þetta er fjallað í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skipan landsvæða og virkjunarkosta í nýtingarflokk felur þó á engan hátt í sér yfirlýsingu um að út í framkvæmdirnar skuli fara á tímabilinu heldur eingöngu að heimilt sé að veita leyfi vegna þessara virkjunarkosta. Virkjunarkostir sem falla í þennan flokk ættu því að fara í hefðbundið leyfisveitingar- og umhverfismatsferli samkvæmt framangreindum lögum og öðrum lögum eftir því sem við á. Þá fer það eftir ákvæðum laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, hvort framkvæmdin er háð umhverfismati eða ekki. Ekki er útilokað að stjórnvöld meti það svo að ekki skuli gefið út leyfi sem tengist orkuvinnslu vegna virkjunarkosta í nýtingarflokki. Í ljósi framangreinds er einnig miðað við að verndar- og nýtingaráætlunin feli í sér almenna stefnumörkun en ekki skipulags- eða framkvæmdaáætlun í skilningi laga nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Flokkun virkjunarkosta í þennan flokk bindur hins vegar almennt skipulagsyfirvöld við gerð skipulagsáætlana. Er því við það miðað að skipulagsáætlanir geri ráð fyrir viðkomandi framkvæmdum á þeim svæðum sem virkjunarkostir í þessum flokki snerta. Við þá skipulagsgerð getur reynt á framangreind lög um umhverfismat áætlana.“

Samkvæmt 7. gr. laganna er verndar- og orkunýtingaráætlun bindandi við gerð skipulagsáætlana sveitarstjórna en þeim er þó heimilt að fresta ákvörðun um landnotkun í allt að tíu ár og geta óskað heimildar Skipulagsstofnunar til frestunar í að hámarki þrjú ár til viðbótar. Samkvæmt raforkulögum þarf leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka raforkuver. Þegar sótt er um slíkt leyfi þarf fyrirhuguð virkjunarframkvæmd að vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlun á viðkomandi sviði. Með öðrum orðum þarf skipulag sveitarfélags um virkjunarkost í nýtingarflokki að liggja fyrir þegar sótt er um virkjunarleyfi fyrir umræddan kost. Allir virkjunarkostir í nýtingarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða eru háðir mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Þetta nefndarálit er nokkuð ítarlegt þannig að ég les það ekki í heild sinni, virðulegi forseti, enda liggur það frammi. Ég vil hins vegar koma aðeins að rökstuðningi og því sem kemur fram í nefndarálitinu um þá virkjunarkosti sem hér um ræðir. Í neðri hluta Þjórsár voru Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun í nýtingarflokki í niðurstöðum verkefnisstjórnar í 2. áfanga rammaáætlunar. Ástæðan fyrir því að þessir kostir voru færðir í biðflokk var að upplýsingar bárust um neikvæð áhrif á laxastofn árinnar og var á þeim tíma talið óhjákvæmilegt að nýtt heildarmat færi fram á umhverfisáhrifum þar til fyrir lægi niðurstaða sem sýndi áhrif framkvæmdanna á laxfiska í ánni. Meiri hlutinn bendir á að gagnrýnt hafi verið á sínum tíma að þáverandi meiri hluti á Alþingi hefði vikið frá niðurstöðum verkefnisstjórnar í 2. áfanga rammaáætlunar. Niðurstaða verkefnisstjórnar nú var ekki einróma en einn fulltrúi í henni lagði til að allar þrjár virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár færðust í nýtingarflokk.

Hinn 22. október 2013 óskaði verkefnisstjórn skýringa frá virkjunaraðila á útfærslu þriggja virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar. Svar barst frá Landsvirkjun hinn 31. október 2013 sem ber yfirskriftina: „Nánari skýringar varðandi útfærslu þriggja virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Urriðafoss-, Holta- og Hvammsvirkjunar.“

Fyrr á árinu 2013 rituðu Skúli Skúlason og Haraldur Rafn Ingvason skýrslu um laxfiska í Þjórsá. Verkefnisstjórn fól hinn 22. október 2013 faghópi að fara yfir meðal annars fyrrgreinda skýrslu og svör Landsvirkjunar og liggur fyrir mat faghópsins, dagsett 4. nóvember 2013.

Ég vek athygli á þessum dagsetningum. Verkefnisstjórnin felur faghópi þann 22. október 2013 að fara yfir skýrslu og svör Landsvirkjunar og einnig þá skýrslu sem hér var sérstaklega vísað til. Þessi faghópur skilar af sér innan við tveim vikum síðar, 12 dögum síðar, þannig að það hefur verið hratt unnið nema hlutirnir hafi legið svona augljóslega fyrir. Það vekur auðvitað athygli þegar í raun er rökstudd niðurstaða sem gengur algjörlega í berhögg við þá miklu vinnu og þá niðurstöðu sem komist var að í verkefnisstjórn um 2. áfanga rammaáætlunar. Maður hefði getað haldið að það þyrfti kannski meiri vinnu í kringum það. En ég ætla ekki að gera lítið úr því, alls ekki, þetta varð niðurstaða hópsins. Hann taldi réttlætanlegt að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk en taldi hvorki réttlætanlegt að færa Holtavirkjun né Urriðafossvirkjun í nýtingarflokk.

Meiri hlutinn bendir á að í greinargerð Landsvirkjunar, dagsettri 18. mars 2014, er fjallað um mótvægisaðgerðir vegna Holtavirkjunar sem miða að því að vernda fiskstofna og um vöktun og viðbragðsáætlun. Þar er fjallað um markmið mótvægisaðgerða og teknar saman upplýsingar um mótvægisaðgerðir fyrirhugaðrar virkjunar sem miði að verndun fiskstofna. Í greinargerðinni er farið yfir ýmis atriði, svo sem val á gerð véla, seiðaveitur og laxastiga og stýringu á rennsli neðan við Búðafoss. Fjallað er um mótvægisaðgerðir í farvegi neðan yfirfalls við Búðafoss. Einnig er fjallað um mótvægisaðgerðir til að tryggja rennsli um Murneyrarkvísl. Þá er fjallað um vöktun á fiskstofnum og gerð grein fyrir áætlun um viðbrögð við mismunandi aðstæður ef mótvægisaðgerðir gagnast ekki. Einnig liggur fyrir greinargerð Landsvirkjunar, dagsett 18. mars 2014, um mótvægisaðgerðir vegna Urriðafossvirkjunar sem miða að verndun fiskstofna auk vöktunar- og viðbragðsáætlunar. Þar eru teknar saman upplýsingar um mótvægisaðgerðir fyrirhugaðra virkjana sem miða að verndun fiskstofna og tilgreint val á gerð vélar og gerð grein fyrir seiðaveitu við inntak virkjunar, laxastiga við Heiðarlónsstíflu, stýringu á rennsli og mótvægisaðgerðir í farvegi. Einnig er fjallað um vöktun á fiskstofnum og áhrif mótvægisaðgerðar.

Það hefur sem sagt verið farið mjög ítarlega yfir þetta sem út af hefur staðið varðandi virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár, áhrif á laxastofnana, og það er mín skoðun og annarra sem hafa fjallað ítarlega um þetta að þau atriði sem út af kunna að standa eigi heima í umhverfismati framkvæmda vegna þess að þar koma þessar mótvægisaðgerðir í raun til nánari skoðunar.

Skrokkölduvirkjun var í nýtingarflokki eftir röðun verkefnisstjórnar í 2. áfanga rammaáætlunar. Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er virkjunarkosturinn í biðflokki og rökstyður verkefnisstjórn það þannig að afla þurfi gagna til að endurmeta áhrif Skrokkölduvirkjunar og Hágönguvirkjunar á víðerni og verndarsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, sem og samlegðaráhrif þeirra og flutningskerfa raforku. Meiri hlutinn bendir á að ekki felist í breytingartillögu hans tillaga um að Hágönguvirkjun færist í nýtingarflokk. Skrokkölduvirkjun er fyrirhuguð á svæði sem þegar er raskað og verður grafin inn í Skrokköldu. Ætlunin er að nýta fall milli tveggja manngerðra miðlunarlóna og verður virkjunin að mestu ósýnileg þeim sem fara um svæðið. Eina sýnilega mannvirkið að vegum undanskildum verður tæplega kílómetra langur frárennslisskurður frá frárennslisgöngum niður að viki í Kvíslavatni. Einnig má benda á að ekki felst tilfinnanlegur kostnaður í því að fjarlægja sýnileg mannvirki og loka aðkomugöngum og er virkjunin því afturkræf. Virkjunin mun tengjast flutningskerfinu með jarðstreng.

Um Hagavatn segir í nefndaráliti okkar:

Í umsagnarferli sem hófst 19. ágúst 2011 komu fram nýjar upplýsingar sem einkum fjölluðu um jarðvegsfok og áhrif á ferðaþjónustu. Meiri hlutinn bendir á að bæði hafa komið fram rök með og á móti því að fyrri hámarksstærð Hagavatns verði endurheimt með stíflugerð til að hefta sandfok og endurheimta gróðurþekju nærliggjandi svæða. Virkjunarhugmyndir ganga út á það að stöðuvatnið muni ná fyrri stærð eins og það var áður af náttúrunnar hendi. Fram kom við umfjöllun um málið að fyrirætlanir lúti að því að endurheimta fyrri stærð vatnsins og hefði verið til skoðunar að nýta þá framkvæmd til orkuframleiðslu. Fyrir liggur að heimamenn eru áhugasamir um verkefnið og telja það hefta jarðvegsfok, auka möguleika á landgræðslu og bæta lífsgæði íbúa á áhrifasvæði uppfoksins. Þá bendir meiri hlutinn á að jarðvegsfok frá svæðinu er vel þekkt og fyrir liggur að árið 1997 var unnið mat á umhverfisáhrifum þess að hækka vatnsborð Hagavatns með því að stífla Farið. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur ályktað um mikilvægi þess að færa yfirborð vatnsins til fyrra horfs til að hefta sandfok og tryggja árangur uppgræðslu. Fram kom fyrir nefndinni að helsti orsakavaldur jarðvegsfoks, gamli botn Hagavatns, sökkvi alfarið verði framkvæmdin að veruleika.

Hvað varðar framangreinda kosti bendir meiri hlutinn á líkt og að framan er getið að enn er eftir ferli mats á umhverfisáhrifum og öflun leyfa, þ.e. virkjunarleyfis og framkvæmdaleyfis. Þá þarf eftir atvikum að breyta skipulagi viðkomandi sveitarfélaga. Samkvæmt þessum verkferlum fer fram ítarleg og nákvæm yfirferð og er almenningi tryggð aðkoma til að gera athugasemdir við viðkomandi framkvæmd.

Ráðherra skipaði verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar fyrir tveimur árum en enn liggur ekki fyrir breyting nema á einum kosti, þ.e. Hvammsvirkjun. Meiri hlutinn hvetur ráðherra til að tryggja áframhaldandi framgang verkefnisins og tryggja því fjármagn. Meiri hlutinn bendir á að hér á landi er áætlun um vernd og nýtingu landsvæða sambland af undanfarandi faglegu mati verkefnisstjórnar og þinglegri meðferð eða pólitísku ferli. Sjaldnast verða allir sáttir við flokkun allra virkjunarkosta áætlunarinnar. Hins vegar telur meiri hlutinn að ferlið verði að vera traust og að meiri líkur væru á sátt um niðurstöðuna ef ferlinu sem slíku væri treyst. Ljóst er að þegar gildandi áætlun var samþykkt á Alþingi var vikið frá faglegu mati verkefnisstjórnar í 2. áfanga rammaáætlunar og hið sama á við nú en niðurstaða meiri hlutans er að hverfa að nokkru leyti til niðurstöðu fyrri verkefnisstjórnar. Meiri hlutinn telur brýnt að ráðherra fari yfir framangreindar athugasemdir um ferlið sem lögin byggjast á. Meiri hlutinn hvetur ráðherra til að huga að því í samráði við viðeigandi undirstofnanir og vonast til að lagafrumvarp þar að lútandi liggi fyrir hið fyrsta.

Meiri hlutinn leggur svo til að þetta mál verði samþykkt og undir meirihlutaálitið skrifa Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir

Það þarf ekki að fara mörgum orðum það hvaða áhrif orkufrekur iðnaður hefur haft á íslenskt þjóðarbú. Við sem sóttum ársfund Landsvirkjunar sem haldinn var fyrir nokkrum dögum fengum mjög góða yfirsýn yfir stöðu þess fyrirtækis og þessa málaflokks. Það var áhugavert að hlusta á ræðu forseta Íslands og ég vil leyfa mér að vitna aðeins í ræðu hans. Hann sagði meðal annars, með leyfi forseta:

„Landsvirkjun getur því með stolti litið yfir farinn veg og fagnað um leið hinum fjölþættu tækifærum sem nú móta daglega önn, tækifærum sem fært geta þjóðinni enn meiri hagsæld, treyst stoðir velferðar og iðandi þjóðlífs.

Nú er eftirspurnin eftir orku mun meiri en Landsvirkjun getur annað, vandinn að velja úr röðinni sem bíður eftir viðskiptum, staða sem við sem sátum í stjórn Landsvirkjunar fyrir 30 árum hefðum talið draumsýn eina því þá var vandinn, og hafði verið árum saman, jafnvel í áratugi, að enginn stór kaupandi fannst að orkunni, vandi sem hvorki fyrirtækinu né fjölmörgum ríkisstjórnum tókst að leysa.

Á afmælisárinu er staðan hins vegar sú að kaupendur knýja dyra, iðjuverin sem hér hafa starfað og ný framleiðslufyrirtæki sem og gagnaverin sem vaxa ört og önnur sem vilja koma hingað …“

Þetta brýnir okkur í því, virðulegi forseti, hversu mikilvægt það er að halda áfram á þessum vettvangi. Það var engin sátt um málsmeðferð og niðurstöðu á síðasta kjörtímabili um hvernig haldið var á málum. Það var lagt af stað með það að leiðarljósi að við gætum verið að leiða þennan ágreining í ljós. En það geta allir séð sem vilja að þau pólitísku inngrip sem áttu sér stað ollu miklu uppnámi varðandi framtíðarskipulag þessara mála, því miður. Afleiðingarnar liggja líka fyrir. Afleiðingarnar eru þær sem lágu fyrir strax í upphafi, þ.e. að uppbygging í orkufrekum iðnaði mundi stöðvast og þjóðin tapa nokkrum mikilvægum árum í áframhaldandi uppbyggingu á þessum vettvangi. Við höfum búið við það í gegnum áratugina að hér voru mjög veikar stoðir undir þessu samfélagi. Við byggðum afkomu okkar á verði á fiski, gæftum og aflabrögðum. Því má segja að á þeim tíma sem við upplifðum efnahagshrunið, 2008, hafi nýjar og sterkar stoðir og fleiri stoðir verið komnar undir íslenskt samfélag þannig að þá hristist kannski yfirbyggingin í íslensku samfélagi. Þegar síldin hrundi hins vegar á sínum tíma hrikti í grunnstoðum íslensks samfélags. Það var barátta sem hófst hér um það leyti sem Landsvirkjun var stofnuð um það hvert ætti að stefna í þessum málum. Fyrir 50 árum voru pólitísk átök um það, nákvæmlega eins og í dag, hvort fara ætti þessa leið eða ekki.

Við vitum öll hvaða leið varð ofan á og hún hefur auðvitað verið mjög farsæl fyrir íslenska þjóð. Því hefur gjarnan verið haldið fram í umræðunni um þessi mál að við höfum verið að gefa orkuna, við höfum í gegnum tíðina selt orkuna allt of ódýrt á Íslandi.

Það er ágætt að lesa hér þau orð sem forseti Íslands sagði einmitt á 50 ára afmæli Landsvirkjunar þegar hann rifjaði upp stjórnarsetu sína í þessu fyrirtæki fyrir 30 árum, á þeim tíma sem menn leituðu logandi ljósi að einhverjum stórum erlendum aðilum sem væru tilbúnir að koma hingað, fjárfesta og byggja upp á okkar ágæta landi. Það var ekki sjálfsagt að það tækist og auðvitað þurfti að gefa ýmislegt eftir. Á þessum tíma, í kringum 1960, þegar þessar ákvarðanir áttu sér stað lá fyrir að það þurfti að fara í ákveðnar stórvirkjanir í landinu. Við vorum ekki farin að anna almennum vexti atvinnurekstrar í landinu, raforkuöryggi var mjög ótryggt og það þurfti að fara í stórar framkvæmdir. Það var mjög dýrt fyrir fámenna þjóð í stóru landi að leggjast í slíkt stórræði nema til væri einhver stór kaupandi sem væri tilbúinn að taka þennan kostnað með okkur. Og hann fannst sem er ástæðan fyrir því að í dag borga heimili og almennur atvinnurekstur eitthvert lægsta orkuverð í heimi. Ástæðan er sú að þessi leið var fetuð. Það er kannski hinn mesti daglegi ávinningur íslenskra heimila og íslenskra fyrirtækja af því að fara þessa leið.

Við sjáum núna, u.þ.b. 50 árum eftir stofnun Landsvirkjunar, að heldur betur er að birta yfir vegna þess að nú hafa þær fjárfestingar sem farið var í á sínum tíma að hluta til verið afskrifaðar og eru farnar að skila mjög miklum fjármunum til fyrirtækisins sem hefur hratt getað greitt niður skuldir sínar. Af hálfu fyrirtækisins er boðað að innan jafnvel skamms tíma, alveg á næsta leiti, muni arð- og skattgreiðendur þess vera farnir að sjá arð og skattgreiðslur þeirra nema jafnvel tugum milljarða inn í þjóðarbúið á hverju ári. Virði þessa fyrirtækis er sennilega einhvers staðar í kringum 600 milljarðar, fyrirtækis sem hefur sprottið úr engu í þessi verðmæti. Ríkið hefur aldrei lagt eina krónu í það. Það hefur veitt því ábyrgðir á lánum og staða fyrirtækisins er að verða núna með þeim hætti að það telur sig ekki þurfa á þeim ábyrgðum að halda í framtíðinni. Það verður algjörlega sjálfstætt í að standa straum af lántökum sínum.

Allar þjóðir öfunda okkur, virðulegi forseti, af þeirri stöðu sem við erum í. Göran Persson var á ársfundi Samtaka atvinnulífsins um daginn og talaði um náttúruauðlindir Íslendinga og þau raunverulegu verðmæti sem við getum byggt framleiðslu okkar á. Hann hvatti okkur til að fara varlega, ganga hægt um gleðinnar dyr, en sagði að við hefðum traustari undirstöður en nokkur önnur þjóð sem hann þekkti til. Um þetta erum við síðan að deila, virðulegi forseti, hversu langt á að ganga. Við höfum gengið skemur en flestar þjóðir, t.d. Noregur, ef við berum okkur saman við frændþjóðir okkar í Skandinavíu. Við eigum að leita leiða til að koma á sátt í þessu máli en sáttaumleitanirnar mega ekki snúast um að slá hér stöðugt öllu á frest. Við höfum ekki efni á því. Við þurfum að halda áfram á þessum vettvangi eins og öðrum, það er gríðarlega mikilvægt. Við sjáum hvernig núna er kallað eftir því að við framleiðum meiri raforku með þeim hætti sem við gerum. Við sjáum að við erum að byggja upp enn fjölbreyttari flóru fyrirtækja og atvinnulífs, enn meiri útflutningsverðmæti. Við fáum hærra verð fyrir orkuna núna en við höfum nokkru sinni fengið. Þegar við komum að því að hugsa aðeins til framtíðarkynslóða, eins og gjarnan er gripið til í þessari umræðu, að við þurfum að geyma eitthvað fyrir komandi kynslóðir, spyr ég: Hvað er betra fyrir okkur flest sem erum hér inni en það að foreldrar okkar skuli hafa byggt fyrir okkur Búrfellsvirkjun eða Sogsvirkjanir sem í dag standa mikinn straum af því sem við byggjum okkar samfélag á? Þau byggðu upp þessar atvinnugreinar. (ÖS: … sumar …)

Virðulegi forseti. Ég læt þessu lokið í bili.