144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í einnar mínútu andsvari er ekki hægt að bregðast við ræðu hv. þingmanns, það mun ég gera í ræðu minni á eftir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem kemur fram í gögnum til nefndarinnar og er lögskýringargagn með þessari þingsályktunartillögu. Það er álit umhverfis- og auðlindaráðuneytisins varðandi lög nr. 48/2011, rammaáætlunarlögin, um að það geri ekki ráð fyrir því að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar og orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram hvað þá kosti varðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða álit hann hefur á þessari umsögn ráðuneytisins og hvort hann sé ekki hræddur við að þetta álit, verði breytingartillagan samþykkt, sé gagn sem notað verði ef einhverjum dettur í hug að fara í málaferli út af þessari ákvörðun eða því að menn telji að hér hafi ekki löglega verið staðið að málum gagnvart (Forseti hringir.) því sem stendur í lögunum.