144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hnýtir í faghóp verkefnisstjórnar, ekki tel ég það nú vera betra en að hnýta í verkefnisstjórn. Telur hann að fagmennska sé meiri innan meiri hluta atvinnuveganefndar en þeim faghópi og hann sé þess umkominn að hnýta í hann?

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem kom fram hjá veiðimálastjóra að ef mótvægisaðgerðir mundu ekki virka sem skyldi þá væri 88% laxastofnsins í Urriðafossi í uppnámi og 52% laxastofnsins í Holtavirkjun. Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af þessu? Telur hann bara rétt að við böðlumst áfram? Mig langar líka að heyra hvort hv. þingmaður viti muninn á umhverfismati áætlana og umhverfismati framkvæmda. Umhverfismat áætlana fer í umsagnarferli þar sem almenningur hefur aðkomu, sem það gerir (Forseti hringir.) ekki í umhverfismati framkvæmdaáætlunar sem hv. þingmaður virðist vilja að allt fari í.