144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kann illa við að mér séu lögð orð í munn og sagt að ég sé að hnýta í einhverja. Ég tek það hér sérstaklega fram að ég er ekki að gera athugasemdir þótt það veki athygli hve tíminn var stuttur. Mér finnst að svona málflutningur eigi ekki að eiga sér stað og ég vísa þessu á bug.

Hef ég ekki áhyggjur af því að mótvægisaðgerðir muni ekki virka í neðri hluta Þjórsár? Samkvæmt þeirri yfirferð sem hefur nú verið nokkuð ítrekuð í atvinnuveganefnd með fjölmörgum aðilum og ekki bara í vetur heldur áður líka, þá er ekki tilefni til þess að hafa af því miklar áhyggjur. En það þýðir ekki að ekki verði vandað vel til verka. Það hefur komið fram hjá Veiðimálastofnun að enginn laxastofn hafi verið rannsakaður betur eða mótvægisaðgerðir í Þjórsá, ekkert hafi verið rannsakað betur í Þjórsá að þessu leyti. Þeir hafa haft á orði hjá Veiðimálastofnun sem eru okkar sérfræðingar í þessum málum, m.a. í þeim mótvægisaðgerðum sem stendur til að grípa til, að lengra verði (Forseti hringir.) ekki gengið í rannsóknum. En við getum auðvitað haldið hlutunum (Forseti hringir.) þar sem ekkert gerist, ekkert heldur áfram. (Forseti hringir.) Þar getum við haldið því. Það eru sumir sem vilja það. En það er að mínu mati (Forseti hringir.) og annarra komið að því að halda áfram.