144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að hv. atvinnuveganefnd hafi tekið að sér að vera ný verkefnisstjórn? Í þessu tilfelli er auðvitað atvinnuveganefnd með verkefnið og stýrir því, alveg eins og í öllum öðrum málum sem koma til þingsins. Hér voru einhverjir að tala um það áðan hvað það hefði verið gott að atvinnuveganefnd hefði ekki afgreitt náttúrupassann í gegn. Vorum við þá verkefnisstjórn í þeim skilningi? Auðvitað snýst þetta um að á vettvangi þingsins verða málefnalegar umræður. Þar eru þingmál send til umsagnir. Þar kemur fjöldi gesta. Er það út af engu gert? Nei, það er einmitt gert til þess að safna saman upplýsingum, leggja þær síðan á vogarskálarnar og taka ákvörðun. Það er nákvæmlega það sem nefndin hefur gert. Með nákvæmlega sama hætti og ráðherra á síðasta kjörtímabili lagði eftir umsagnarferli (Forseti hringir.) upplýsingarnar á vogarskálarnar og tók þá ákvörðun að taka virkjunarkosti (Forseti hringir.) úr (Forseti hringir.) nýtingarflokki yfir í biðflokk, erum við núna, á algjörlega sömu forsendum, (Forseti hringir.) að taka virkjunarkosti úr biðflokki og færa þá yfir í nýtingu.