144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta svar hv. þingmanns sýnir auðvitað að meiri hluti atvinnuveganefndar er algerlega úti á túni í þessari tillögu sinni, eða kannski meira ofan í skurði, það passar kannski betur í þessu samhengi. Það er auðvitað ekki hlutverk atvinnuveganefndar að stíga inn á verksvið verkefnisstjórnarinnar og breyta sér í einhvers konar verkefnisstjórn og fara yfir það sem út af stendur.

Það er ekkert annað en sorglegt að hlusta á málflutning á borð við þann sem hv. þingmaður lét frá sér fara um að það væri auðvitað mjög æskilegt að ná sátt um þetta mál, en þá verða allir að hætta að vera ósammála mér, það verða bara allir að hætta því að vera í kyrrstöðu. Það er útilokað að ná nokkrum árangri með þeim hætti. Það er útilokað að ná nokkurri sátt með þessari framgöngu. Það veit auðvitað hv. þm. Jón Gunnarsson.