144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að sumir ef ekki allir þingmenn stjórnarliðsins í atvinnuveganefnd hafa látið undir höfuð leggjast að lesa minnisblöð umhverfisráðuneytisins annars vegar og atvinnuvegaráðuneytisins hins vegar. Það er mikill ljóður á þessum málatilbúnaði. Það liggur fyrir í minnisblöðum frá þessum ráðuneytum, sem Kristján L. Möller las upp úr hér fyrr á fundinum, frá 27. nóvember 2014, að þetta gangi einfaldlega ekki. Það stangast á við þá túlkun sem hæstv. forseti hefur haft hér uppi. Þess vegna er nauðsynlegt að forseti fundi með formönnum þingflokka og geri grein fyrir því hvaða lögfræðingar standa að baki þessum úrskurðarorðum. Það verður auðvitað að gera hlé á þessari umræðu og fá okkar færasta fólk til þess að ráða fram úr því hvort taka eigi að mark á umhverfisráðuneytinu þegar það túlkar þau lög sem undir það falla eða þessum tiltekna úrskurði þar sem ekkert er fjallað um minnisblöðin.