144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þennan hálftíma sem við fengum til þess að skoða þetta mál aðeins betur. Tíminn hefði að vísu mátt vera lengri en hann var alla vega nógu langur til að óhætt sé að taka undir þá bón sem hér hefur verið lögð fram, að hittast með virðulegum forseta, þingflokksformenn og lögfræðingar, til þess að fara yfir þennan úrskurð. Eins og aðrir er ég ekki sannfærður um að hann sé réttur. Sömuleiðis er orðalagið í honum veikt, svo meira verði ekki sagt, og full ástæða til þess að hafa þetta á hreinu.

Aftur verður að ítreka að hér er um eitt umdeildasta mál að ræða í íslenskri nútímastjórnmálasögu. Það er því gríðarlega mikilvægt að allt form sé á hreinu og að við séum alla vega sátt við formið sem við notum til þess að ræða formið sem var hugsað til þess að ná einhvern tíma, einn daginn sátt um einhverjar ákvarðanir í þessum málaflokki.

Nú liggur meira á en áður að hér sé hvert skref tekið varlega og með hliðsjón af öllum aðgengilegum staðreyndum (Forseti hringir.) og að við förum yfir þetta mál eftir því sem best (Forseti hringir.) verður við komið.