144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég, eins og aðrir hv. þingmenn, gagnrýni þennan úrskurð og málsmeðferð í framhaldi af honum þegar hefur komið svo skýrt fram að minnisblað liggur fyrir bæði frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og líka frá atvinnuvegaráðuneytinu sem gengur í þveröfuga átt. Það er ekki eins og lögfræðing þurfi til að skilja það sem þar kemur fram, þó að þeir séu hérna háttvirtir inni á Alþingi. Ég meira að segja tel mig geta skilið þetta mætavel, og hef ég ekki lögfræðimenntun, að Alþingi á ekki að fjalla um neina virkjunarkosti sem hafa ekki fengið faglega meðferð í verkefnisstjórn. Þannig hljóðar nú það orð. Mér finnst að hæstv. forseti verði að hitta formenn flokka stjórnarandstöðunnar og þingflokksformenn og fara yfir þessa stöðu með álitsgjöfum sínum og að þingflokksformenn geti líka kallað til lögfræðing til að hafa sér innan handar.