144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að þessi fundur hafi verið boðaður núna til að fara yfir úrskurðinn, því að það verður að segjast eins og er að við eigum eftir að ræða efnislega um inntak þessarar tillögu. Það er ekki traustvekjandi þegar uppi eru efasemdir um ýmsa formlega þætti, sem verið hefur allt frá því að ákveðið var af meiri hluta þingsins að vísa málinu til hv. atvinnuveganefndar, sniðganga hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem farið hefur með málið, enda málaflokkur hæstv. umhverfisráðherra undir. Enginn hefur enn getað útskýrt fyrir þeirri sem hér stendur hvernig nákvæmlega er hægt að aðskilja þættina vernd og nýtingu í rammaáætlun og að þeir eigi að heyra undir ólíkar nefndir þingsins. Það hefur enginn getað rökstutt það með sannfærandi hætti. Ég verð að segja að þegar formið er þannig að á því ríkir ekki traust er erfitt að fara inn í efnislega umræðu fyrr en við höfum að minnsta kosti reynt að ná einhverri sátt um formið. Svo munum við ekki vera sammála um efnislega þætti tillögunnar. Það er annað. En það gengur ekki að við upplifum það í þinginu að verið sé að reyna að fara fram hjá (Forseti hringir.) lögum, reglum, hefðum og venjum í því hvernig við vinnum í þinginu til þess að keyra mál í gegn í krafti meiri hluta.