144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Á sama tíma í gær, þegar forustumenn stjórnarandstöðunnar buðu ríkisstjórninni hjálparhönd, aðstoð, sáttarhönd í þeim gríðarlega erfiðu viðfangsefnum sem hún glímir við, var DV að taka saman stöðuna á stórum málum ríkisstjórnarinnar og smíða samantekt sem hefur þessa fyrirsögn: Stóru málin strand. Aðeins átta fundardagar eftir á Alþingi.

Þetta er auðvitað mjög sláandi lesning. Hún er vitnisburður um alveg vonlausa verkstjórn. Hvert er næsta skref stjórnarmeirihlutans eftir daginn í gær, í þessari stöðu með öll málin strand? Jú, það er að reyna aðeins að róa stöðuna með því að taka rammaáætlun með fjölda breytingartillagna frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni á dagskrá. (Forseti hringir.) Eru einhverjir hissa á því að hér sé ekki neitt sérstaklega góð stemning? Ég fagna því að við séum að fara (Forseti hringir.) að fara yfir stöðuna á fundi með forseta, það er full þörf á því. En það er líka full þörf á því fyrir stjórnarmeirihlutann (Forseti hringir.) að vakna til meðvitundar um veruleikann sem hann dvelur í.