144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú gerast þau tíðindi að í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 og síðan á RÚV kemur fram að hæstv. ráðherra styður ekki málið. (HHj: Hún er ekki í húsi.) Hæstv. umhverfisráðherra styður ekki málið og ráðherrann er ekki í húsi og við erum að fara að halda umræðunni áfram.

Virðulegi forseti. Eru engin takmörk fyrir vitleysunni sem þessi ríkisstjórn býður okkur upp á? Hér er allt í bál og brandi út af breytingartillögu hv. atvinnuveganefndar við tillögu hæstv. umhverfisráðherra og maður hefði haldið að það væri þá pólitískur þungi og alvörumeirihluti bak við málið. Nei, það er það ekki.

Hér kemur fram að enn eina ferðina talar þessi ríkisstjórn í allar áttir og enn eina ferðina kemur í ljós að það er engin forusta, það er engin yfirsýn, það er engin stefna sem ríkisstjórnin er tilbúin að fylgja eftir. Hæstv. umhverfisráðherra verður að vera viðstödd umræðuna og taka þátt í henni. Það er eina leiðin til þess að við getum leitt þessa vitleysu til lykta.