144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Við í minni hlutanum á þinginu höfum kvartað yfir því að ekkert samráð hafi verið haft við okkur um þessa tillögu og það hefði verið hægt að forða miklum átökum og þeirri leiðinlegu orrahríð sem staðið hefur hér í dag. Í fréttaflutningi Stöðvar 2 í kvöld kemur í ljós að það eru fleiri en við í stjórnarandstöðunni sem þurfa að kvarta undan samráðsleysi. Það hefur greinilega ekkert samráð verið á milli stjórnarflokkanna í þessum efnum. Það kemur í ljós að sjálfur hæstv. umhverfisráðherra er alls ekki sátt við tillögu breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar og biður um frið fyrir verkefnisstjórnina til þess að klára málið. Hvar erum við þá stödd? Það er ekki meiri hluti fyrir þessu máli í þinginu, ekki nema þingflokkur Framsóknarflokksins ákveði að sýna landsmönnum fram á að umhverfisráðherra þeirra eigin flokks hafi ekkert áhrifavald í málaflokknum, ráði engu um þetta, skoðanir hennar séu bara (Forseti hringir.) einskis virði. Það er ótrúleg framvinda í þessu máli. Ótrúleg.