144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í hvaða skrípómynd erum við eiginlega stödd? Hér tekur hæstv. forseti ákvörðun um að koma með úrskurð sem byggir á mjög vafasömum forsendum vægast sagt, lagði lykkju á leið sína til þess að reyna að verja meiri hluta þingsins í þeim leiðangri að koma þessum vafasöm virkjunarframkvæmdum í gegnum þingið og svo kemur ráðherra umhverfis- og auðlindamála í fréttum í kvöld og segir okkur, þjóðinni, að hún vilji helst að upphaflega tillagan standi bara og tínir sérstaklega til að hún sé andsnúin því að Skrokkalda og Hagavatn fari í gegnum þetta ferli hér í þinginu. Hvað er eiginlega í gangi? Hvað er verið að láta okkur standa hér upp á endann að ræða þessi mál þegar ríkisstjórnin veit ekki einu sinni hvað hún vill?

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn er algert bíó. Ég held að ef fram heldur sem (Forseti hringir.) horfir eigi opnur eins og eru í DV í dag eftir að verða býsna þykkar þegar vorið (Forseti hringir.) er á enda.