144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. forseti úrskurðaði hér áðan um það hvort þetta mál væri þingtækt og gerði það á þeim forsendum að um væri að ræða breytingartillögu við þingsályktunartillögu frá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Síðan koma tveir nefndarmenn úr atvinnuveganefnd hingað upp og segja: Þetta er ekki tillaga ráðherra, þetta er okkar tillaga. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, allar forsendur málsins hafa breyst þegar svona er komið fram. Þeir hafa afhjúpað það að þeir líti svo á að þetta sé þeirra tillaga, ný tillaga, og þeir hafi ákveðið að koma henni svona inn til að hún færi hratt í gegn. (Gripið fram í.) Hæstv. forseti var hafður að háði og spotti hér í (Gripið fram í.) ræðum þessara tveggja þingmanna. (Gripið fram í: Breytingar…) Hann var hafður að háði og spotti (Gripið fram í: Breytingartillagan …) vegna þess að hann var plataður til að úrskurða á röngum forsendum. Hér er um að ræða nýja tillögu sem kemur ráðherra og hans tillögu ekkert við. Það er því miður óvart þannig að tillaga ráðherra (Forseti hringir.) er sú sem er hér á dagskrá. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég fer fram á það að þessum fundi verði frestað (Forseti hringir.) og um þetta rætt á réttum forsendum.