144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gert ráðstafanir til að umhverfisráðherra gæti verið við umræðuna. Hv. formaður atvinnuveganefndar hefur sagt að hér sé stjórnarandstaðan í málþófi út af engu. Mér finnst það fullmikil hógværð af hálfu hv. þm. Jóns Gunnarssonar að líta svo á að meiri hluti atvinnuveganefndar og tillögur hennar séu ekkert. (Gripið fram í.) Það kann vel að vera að það sé tóm vitleysa og ég held að það sé sýnu nær að hafa áhyggjur af því að formenn stjórnarflokkanna séu bara sofandi heima hjá sér með silfurskeiðina og séu ekkert að sinna verkstjórn í þinginu. Það er alveg ljóst að báðir þeir ráðherrar sem af ríkisstjórninni hafa verið settir yfir þennan málaflokk, Sigurður Ingi Jóhannsson fyrst og nú Sigrún Magnúsdóttir, hæstv. umhverfisráðherra, hafa bæði komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að flytja tillögu um einn kost. En það virðist vera svo að það séu engir verkstjórar í ríkisstjórninni sem ráði við vitleysisganginn í meiri hlutanum í atvinnuveganefnd. (Forseti hringir.) Þetta er satt að segja á engan hátt boðlegt ástand.