144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég eins og aðrir þingmenn hlustaði á kvöldfréttirnar í kvöldverðarhléi áðan og ég heyrði þar hæstv. umhverfisráðherra lýsa því yfir að hún styddi ekki þá tillögu sem hér er til umræðu. Við höfum líka heyrt í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem áður var hæstv. umhverfisráðherra og lagði fram tillöguna og hann hefur líka lýst sig andvígan þessari tillögu.

Ég vil spyrja forseta hvort hann hafi kannað hvort það sé í raun meiri hluti fyrir þeirri tillögu sem við ræðum hér eða hvort þetta sé kannski bara eitthvert létt spaug að halda þinginu uppteknu við að ræða tillögu sem hefur ekki meiri hluta í þinginu á meðan allt logar í vinnudeilum. Við ættum auðvitað að vera að taka á þeim málum en ekki ræða tillögu sem hefur ekki einu sinni stuðning meiri hlutans.