144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. formaður atvinnuveganefndar sagði áðan að honum þætti þetta óskemmtilegt og kallaði þennan málflutning væl. Ég er ekki hissa á að honum finnist þetta óskemmtilegt. Mér mundi líka finnast það óskemmtilegt ef málflutningur minn væri afhjúpaður á fyrsta degi umræðu, á fyrstu klukkustundum umræðu þegar fram kemur í fyrsta lagi að uppi eru verulegar efasemdir um að tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar sé þingtæk, að hún standist venju og hefðir á þinginu. Við eigum eftir að fá að skoða það talsvert betur.

Í öðru lagi kemur fram í málflutningi hv. þingmanns meiri hluta atvinnuveganefndar, Páls Jóhanns Pálssonar, að þetta sé sambærilegt við það sem gerðist á síðasta kjörtímabili. Það var allt annað mál, því að eins og við vitum sem höfum lesið lögin um rammaáætlun var þar tekið tillit til umsagna sem bárust í lögbundnu umsagnarferli og það var ráðherra sem gerði það, eins og kveðið er á um í lögbundnu umsagnarferli. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af því að hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar, sem leggja hér fram tillögu, hafa hreinlega ekki lesið lögin um rammaáætlun. Það er dálítið áhyggjuefni.