144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, talar um að stjórnarandstaðan væli og ég ætla að væla svolítið meira. Nú ætla ég að væla yfir því sem hv. þm. Páll Jóhann Pálsson sagði áðan. Ég hef áhyggjur af því að hv. þingmaður hefur ekki kynnt sér lögin um rammaáætlun, nr. 48/2011. Það er ekki von á góðu ef meiri hluti atvinnuveganefndar þekkir ekki þau lög.

Hefur hv. þingmaður ekki lesið bráðabirgðaákvæði með lögunum sem segir hvernig á að fara með fyrstu þingsályktunartillöguna í þinginu? Hefur hv. þingmaður ekki lesið 10. gr. laganna sem segir um ferlið? Þetta mál allt saman er í skötulíki frá upphafi. Við vitum ekki einu sinni hvort það er meiri hluti fyrir málinu. Ég bið forseta að taka málið af dagskrá og hleypa málum að sem sátt (Forseti hringir.) er um og verðugt að ræða.