144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef oft orðið vitni að málþófi á Alþingi. Þetta er ekki málþóf. Við erum að hlusta á málefnalegar og rökstuddar athugasemdir þingmanna gagnvart þessu þingmáli þar sem efast er um lögmæti þess ferlis sem þingmálið byggir á. Þetta er ekki málþóf.

Ég rifjaði það upp í einni athugasemd um daginn undir þessum sama lið að eitt hatrammasta deilumálið sem við höfum orðið vitni að á Alþingi á undanförnum áratugum er Kárahnjúkavirkjun. Þess vegna reyndum við að sameinast um annað vinnuferli. Nú er verið að rífa málið upp úr því ferli. Og þá spyr ég, hæstv. forseti: Er að koma að því að við hættum að ræða þessa rammaáætlun og förum bara að ræða Þjórsá, (Forseti hringir.) og förum bara að ræða einstakar virkjanir? Vegna þess að það er þangað sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) er að stefna þessari umræðu og það er áhyggjuefni.